Nú er komin út skýrsla um stöðu barna af erlendum uppruna, börnum sem flýðu heimili sín vegna ofbeldis og þurftu að dvelja í neyðarathvarfi vegna þessa. Skýrslan heitir „Hvað segir mamma? – Börn af erlendum uppruna í Kvennaathvarfinu“
Skýrslan var unnin var af sérfræðingum Kvennaathvarfsins í Reykjavík með styrk frá félags-og barnamálaráðuneytinu. Rætt var við mæður fimmtán barna sem voru í dvöl í athvarfinu á árunum 2019 og 2020.
Í skýrslunni er sjónum meðal annars beint að því hvernig móðir barnsins upplifir stuðning og hvaða þjónustu hún hefur fengið frá kerfinu fyrir sitt barn vegna þess að barnið býr á ofbeldisheimili. Mæður voru spurðar út í aðkomu mæðraverndar, skólans og barnaverndar. Einnig var móðirin spurð um ofbeldisreynslu barnsins; tegund og tíðni ofbeldis. Teknar voru saman bakgrunnsupplýsingar um barnið svo sem um aldur, kyn, tungumálakunnáttu og tengsl við gerandann. Reynt var að meta lífsgæði barnsins með því að spyrja móður út í atriði eins og hvort barnið hafi einhvern til að tala við, hvort barnið eigi góða vini í skólanum , stundi skipulagðar íþróttir eða sé í tónlistarnámi.