Miðvikudaginn 27. nóvember sl. var undirritaður verksamningur vegna nýbyggingar 18 íbúða áfangaheimilis Kvennaathvarfsins við Alverk og samningur vegna fjármögnunar framkvæmdanna við Landsbanka Íslands. Framkvæmdir hefjast þann 1. febrúar 2020 og er áætlað að þeim ljúki sumarið 2021. Í áfangaheimilinu verða 12 studíóíbúðir og 6 þriggja herbergja íbúðir.

Hönnuðir eru Þorleifur Eggertsson hjá Tendra arkitektum, Lota verkfræðistofa, Teiknistofan Storð og Trivium.

Undirbúningur byggingarinnar hófst árið 2017 með söfnunarátakinu Byggjum von um betra líf á vegum Á allra vörum sem lauk með söfnunarþætti í samvinnu við RÚV og Sjónvarp Símans. Alls söfnuðust um 80 mkr. í átakinu. Verkefnið hefur einnig hlotið stofnframlög frá Íbúðalánasjóði og Reykjavíkurborg í almenna íbúðakerfinu. Því til viðbótar hafa félagasamtökin Oddfellowreglan, Soroptimistar, Zonta og kvenfélög auk margra annarra stutt veglega við verkefnið.

Aðgangur að húsnæði á sanngjörnum kjörum með nauðsynlegri vernd og stuðningi Kvennaathvarfsins getur skipt sköpum um hvernig konum og börnum gengur að byggja nýtt líf, þegar fjölskyldurnar þurfa ekki lengur á neyðarathvarfi að halda. Áfangaheimilið verður því viðbót við núverandi þjónustu neyðarathvarfs Samtaka um Kvennaathvarf, svokallað millistigshúsnæði. Þar munu konur og börn sem flúið hafa ofbeldi í nánu sambandi geta eignast eigið heimili á meðan þær koma aftur undir sig fótunum.