Hvað einkennir heilbrigt/eðlilegt samband?

Athugaðu að hér er ekki um próf að ræða sem gefur niðurstöðuna “já” eða “nei”. Eftirfarandi fullyrðingar geta hins vegar hjálpað þér við að átta þig á eðli sambandsins.

Náið samband getur verið á ákveðnu rófi (e. spectrum) og verið heilbrigt, óheilbrigt eða ofbeldissamband. Samskipti og mörk er ef til vill það sem þarf að skoða þegar meta á hvort um heilbrigt, óheilbrigt eða um ofbeldissamband sé að ræða.

Heilbrigð sambönd einkennast af því að báðir aðilar í sambandinu:

  • Geti talað opið um vandamál sín og hugleiðingar og hinn hlustar. Í samræðum er borin virðing fyrir skoðunum hins. Það á að vera hægt að vera ósammála skoðunum en það er ekki nauðsynlegt að láta hinn aðilann skilja hvers vegna og/eða að breyta sinni skoðun.
  • Virði maka sinn, eins og hann er. Makinn á að vera virtur án skilyrða. Gagnkvæm virðing er nauðsynleg til að viðhalda heilbrigðu sambandi.
  • Beri traust til hvor annars. Hvað þýðir ,,traust“? – Traust er valkostur sem viðkomandi getur ákveðið að nýta sér. Skilgreining á trausti í þessu samhengi getur verið að trúa því að hinn aðilinn sé áreiðanlegur og að finnast maður öruggur andlega og líkamlega í kringum viðkomandi.
  • Eru hreinskilnir við makann sinn. En auðvitað má hafa einhverja hluti út af fyrir sig.
  • Geti eytt sínum tíma í sundur frá hvort öðru, einir eða með öðrum. Mikilvægt er að virða einkalíf makans.
  • Eru búnir að ræða, og taka sameiginlega ákvörðun um, kynferðislegt val og hvort sé tímabært að eignast börn. Það á að vera eðlilegt að ræða opinskátt hvað maður vill og vill ekki í kynlífi og báðir aðilar eiga að vera sáttir með hvenær, hvar og hvernig kynlífið fer fram.
  • Hafa jafn mikið um það að segja hvernig fjármálunum er hagað og báðir aðilar hafa yfirsýn yfir fjármálin.
  • Hvetja hvort annað og styðja.

Á þessari síðu er reynt að hafa textann auðlesanlegan, það er þess vegna sem ekki er alltaf tekið sérstakt tillit til kyngervis eða kynhneigðar í orðavali.