Þann 17. júní sæmdi forseti Íslands Lindu Dröfn Gunnarsdóttur, framkvæmdastýru Kvennaathvarfsins, heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu, fyrir störf í þágu fjölmenningar og þolenda kynbundis ofbeldis. Í slíku felst mikill heiður og blæs auknum þrótti í þá baráttu sem háð er gegn kynbundnu ofbeldi.
Kraftar Kvennaathvarfsins svifu sannarlega yfir vötnum í athöfninni á Bessastöðum á þjóðhátíðardaginn því tvær konur sem á árum áður störfuðu í Kvennaathvarfinu, voru þennan dag einnig sæmdar heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu. Þetta voru þær Guðrún Ágústsdóttir, fyrir störf í þágu jafnréttis og kvennabaráttu, og Vilborg Guðbjörg Guðnadóttir, fyrir framlag til geðheilbrigðismála barna, unglinga og fjölskyldna.
Við hjá Kvennaathvarfinu óskum þeim öllum hjartanlega til hamingju með orðuveitinguna!