Fréttir af nýju íbúðarhúsnæði Kvennaathvarfsins fyrir þær konur og börn sem þurfa frekari stuðning eftir dvöl í athvarfinu: Eygló Harðardóttir verður verkefnisstjóri fyrir nýtt húsnæðissúrræði Kvennaathvarfsins. Hún mun einnig veita forystu nýrri húsnæðissjálfseignastofnun sem Kvennaathvarfið hefur stofnað utan um hinar 16 íbúðir sem ætlunin er að byggja í samræmi við lög um almennar íbúðir.

„Ég kynntist vel hinu mikla og vandaða starfi sem fer fram í Kvennaathvarfinu allan ársins hring í mínu fyrra lífi. Það verður einstakt að fá að fylgja eftir framkvæmdum við íbúðirnar og samþætta þannig tvö af mínum hjartans málum sem hafa verið húsnæðismál og baráttan gegn ofbeldi.“ segir Eygló.

Eygló Harðardóttir er fyrrverandi félags- og húsnæðismálaráðherra og samstarfsráðherra Norðurlandanna 2013-2016. Hún var þingmaður 2009-2017 og sat þar meðal annars í velferðarnefnd og allsherjar- og menntamálanefnd.