Nemendur Hagaskóla söfnuðu hvorki meira né minna en 3.600.000 krónum í árlega átakinu sínu „Gott mál“ – en þar velja nemendur eitt innlent málefni og eitt erlent málefni til að styrkja. Í ár völdu nemendur að styrkja annars vegar Kvennaathvarfið og aðstöðu fyrir unglinga í nýja húsnæðinu sem við erum að byggja. Hins vegar völdu þau samtökin AFGA sem meðal annars starfrækja ungmennahús í Afganistan. Heildarupphæðin skiptist á milli samtakanna tveggja.
Við hjá Kvennaathvarfinu erum náttúrulega að springa úr þakklæti og stolti af þessum flottu krökkum. Við getum ekki beðið eftir að byrja að innrétta unglingaherbergið í nýja athvarfinu. Á myndunum má annars vegar sjá skólastjóra Hagaskóla afhenda verðlaunin og hins vegar Auði og Ísól, starfskonur Kvennaathvarfsins, ásamt dætrum sínum – sem eru í Hagaskóla og tóku þátt í söfnuninni. Takk krakkar – þið eruð æði! 