Á hátíðasamkomu Stórstúkunnar í tilefni af 200 ára afmæli Oddfellowreglunnar var Kvennaathvarfinu afhentur rausnarlegur styrkur; þrjátíu og tvær milljónir króna til að kosta tvær íbúðir, íbúðir 105 og 106, í fjölbýlishúsinu sem hýsa mun áfangaheimili Kvennaathvarfsins. Sigþrúður Guðmundsdóttir og Eygló Harðardóttir tóku við gjöf Oddfellowreglunnar fyrir hönd Kvennaathvarfsins.

Gjöfinni fylgdu falleg orð um áræði sem lýsa vel þeirri vinnu sem væntanlegir íbúar hússins eiga fyrir höndum; Stundum þarf kjark og þor til að halda áfram í lífinu. Með því að líta inn á við, horfa með jákvæðum augum á sjálfa sig og leita að styrkleikum sem í manni búa, finnst það áræði sem er nauðsynlegt til að halda áfram.

Við þökkum rausnarskapinn og hlý orð í garð athvarfsins og okkar fólks.

Lengst til vinstri á meðfylgjandi mynd er Steindór Gunnlaugsson, formaður Styrktar- og líknarsjóðs reglunnar, þá Sigþrúður Guðmundsdóttir framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins, Eygló Harðardóttir verkefnastýra sjálfseignarstofnunarinnar Arnrúnar sem annast rekstur verkefnisins og lengst til hægri er Guðmundur Eiríksson stórsír reglunnar.