Sameiginleg ráðstefna Kvennaathvarfsins og velferðarsviðs borgarinnar verður haldin miðvikudaginn 21. nóvember nk. í Safnaðarheimili Háteigskirkju. Dagskrá hefst kl. 09.00 og lýkur kl. 15.30.

Birtingamyndir heiðurstengdra átaka geta verið margvíslegar, svo sem þrýstingur, ógnanir, þvinganir og ofbeldi, oft af hálfu fjölskyldumeðlima og/eða samlanda. Algengast er að konur og börn frá löndum þar sem heiður fjölskyldunnar er tengdur hegðun fjölskyldumeðlima eða hafður í hávegum séu beitt ofbeldi af þessu tagi til að tryggja að viðkomandi hegði sér í samræmi við hefðir fjölskyldunnar og nærsamfélagsins.

Mikil umræða hefur verið um þessi mál í nágrannalöndum okkar og í Noregi er starfandi þverfaglegt þekkingar- og fræðsluteymi, Kompetanseteam mot tvangsekteskap og kjönnslemlestelse. Teymið vinnur um allan Noreg og sinnir fræðslu, rágjöf og handleiðslu í einstökum málum sem tengjast heiðurstengdum átökum og vinnur með fagfólki á hverjum stað.

Lítið hefur verið rætt um ofbeldi af þessu tagi hér á landi en á ráðstefnunni ræða tveir af starfsmönnum Kompetanseteam mot tvangsekteskap og kjönnslemlestelse, þær Farrah Parveen Ghazanfar og Katarina Sirris Karantonis, um margvíslegar birtingarmyndir heiðurstengdra átaka.

Ráðstefnan er samstarfsverkefni velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Kvennaathvarfsins og ætluð öllum sem vilja fræðast um heiðurstengd átök, ekki síst starfsfólk félagsþjónustu, barnaverndar, heilsugæslu, lögreglu, skóla og útlendingastofnunar og fólki sem vinnur með flóttafólki og þolendum ofbeldis.

Gott aðgengi er fyrir fatlaða á fundarstað. Ráðstefnan fer fram á ensku. Því miður verður ekki streymt beint frá viðburðinum.

Ráðstefnugjald er 7000 kr. og er innifalið í því léttur hádegisverður, kaffi, te og með því allan daginn.

Skráning fer fram hér. 

Nánari upplýsingar hjá Eddu Ólafsdóttur, félagsráðgjafa og sérfræðingi í málefnum innflytjenda, flóttafólks og hælisleitenda á skrifstofu velferðarsviðs Reykjavíkur. Netfang: edda.olafsdottir@reykjavik.is

*Myndin sem fylgir þessum viðburði er tekin úr bæklingnum Kontrol over eget liv -inspiration til, hvordan du kan hjælpe tosprogede unge til at kunne leve det liv, de selv önsker.

 

Hér er ítarleg dagskrá:

Starfsfólk í norska þekkingar- og fræðsluteyminu Kompetanseteam mot tvangsekteskap og kjönnslemlestelse, þær Farrah Parveen Ghazanfar og Katarina Sirris Karantonis sjá um dagskrá ráðstefnunnar.  Athugið að ráðstefnan fer fram á ensku.

Fyrir hádegi:

  • Setning ráðstefnunnar – Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi og formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar.
  • Kynning á ráðstefnunni – Edda Ólafsdóttir, félagsráðgjafi á skrifstofu velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.
  • Kynning á Farrah og Katarinu og vinnustað þeirra Bufdir og Kompetanseteam mot tvangsekteskap og kjönnslemlestelse.
  • Söguleg þróun heiðurstengdra átaka.
  • Hvað eru heiðurstengd átök og ýmsar birtingamyndir þeirra?
  • Kahoot.

Hádegismatur milli kl. 11.45-12.45

Kaffi fyrir og eftir hádegi

Eftir hádegi:

  • Kortlagning á málum sem tengjast heiðurstengdum átökum.
  • Löggjöf og dómar.
  • Kynning á málum og hópastarf.
  • Eftirfylgni mála, áhættu- og öryggismat og húsnæðismál fórnarlamba.
  • Kynning á aðgengilegu efni um heiðurstengd átök (netsíður, skýrslur, handbækur o.fl.).
  • Staðan á Íslandi – örsaga starfsmanns á vettvangi.
  • Næstu skref.