Markmið

Markmið siðareglna Kvennaathvarfsins er að vernda réttindi kvenna sem til athvarfsins leita og barna þeirra og styðja starfsfólk þegar það stendur frammi fyrir siðferðilegum álitamálum. Mikilvægt er að siðareglurnar séu í stöðugri endurnýjun og að starfsfólk yfirfari þær reglulega.

Í Kvennaathvarfinu er rík áhersla lögð á virðingu fyrir þeim sem þangað leita. Starfsfólk vinnur út frá því að mæta konum og börnum eftir þeirra þörfum. Tekið er vel á móti öllum konum og þær aðstoðaðar af fagmennsku og sveigjanleika.

Ábyrgð gagnvart þeim sem leita til Kvennaathvarfsins

  1. Starfskonur gæta þess að grundvallar mannréttindi, sjálfsákvörðunarréttur og réttur þjónustuþega til einkalífs sé virtur. Starfskonur leitast við að byggja upp gagnkvæmt traust og veita stuðning sem einkennist af heiðarleika og virðingu. Þær konur sem leita til Kvennaathvarfsins stýra eigin vegferð og taka ákvarðanir á eigin forsendum.
  2. Starfskonur mismuna ekki dvalar- og viðtalskonum né þeirra börnum heldur veita öllum sambærilega þjónustu. Það er hlutverk starfskvenna að vera meðvitaðar um stöðu mismunandi samfélagshópa sem leita til Kvennaathvarfsins. Einnig þurfa starfskonur að huga að áhrifum eigin gilda, lífsskoðana og forréttinda á viðmót, stuðning og ráðgjöf sem þær veita.
  3. Starfskonur gæta þess að staða þeirra og kunnátta sé ekki notuð til að misbjóða, undiroka, skaða eða kúga konur og börn sem til athvarfsins leita. Starfskonum er einnig óheimilt að nýta sér tengsl við þjónustuþega sér til persónulegs eða faglegs framdráttar.
  4. Það er á ábyrgð starfskvenna að stofna ekki til kynferðislegs eða persónulegs sambands við þá einstaklinga sem til athvarfsins leita, hvorki í raunheimum né í gegnum samfélagsmiðla/netið. Það sama á við nema sem eru í þjálfun í athvarfinu. Séu vensl, vinskapur eða kunningsskapur fyrirliggjandi milli viðtalskvenna og ráðgjafa þegar leitað er til viðtalsþjónustu Kvennanathvarfsins skal viðkomandi fá þjónustu frá ráðgjafa sem er henni ókunnugur.
  5. Starfskonur hafa einungis samband við konur og börn sem leitað hafa til Kvennaathvarfsins ef um er að ræða erindi á vegum athvarfsins. Slík samskipti skulu vera í samráði við næsta yfirmann.
  6. Starfskonum er óheimilt að taka við gjöfum eða þiggja þjónustu frá þjónustuþegum Kvennaathvarsins. Undanskyldar þessu eru smágjafir sem hafa lítið verðgildi. Kvennaathvarfið sem sjálfseignarstofnun getur hins vegar tekið við stærri gjöfum.
  7. Starfskonur sinna ekki starfi sínu undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna sem kunna að hafa áhrif á dómgreind og/eða framkomu þeirra.

Trúnaður/þagnarskylda

  1. Starfskonur virða trúnað við allar konur og börn sem leita til Kvennaathvarfsins. Starfskonur ræða ekki mál kvenna og barna utan starfshópsins og greina ekki frá persónugreinanlegum upplýsingum sem þær fá vitneskju um í starfi sínu utan starfsstöðvar. Þagnarskylda sem starfskonur skrifa undir er þær hefja störf, fellur ekki úr gildi við starfslok. Starfskonur ræða ekki málefni kvenna og barna sín á milli á samfélagsmiðlum. Samskipti utan starfsstöðvar um konur og þau mál sem fram fara í athvarfinu skulu einungis fara fram ef nauðsyn krefur og haldið í lágmarki. Auk þess skal þess gætt að málefni þeirra séu ekki persónugreinanleg á öðrum samskiptaforritum nema nauðsyn krefji.
  2. Starfskonur gera þjónustuþegum grein fyrir þagnarskyldu og trúnaði sem gildir um allt starf í Kvennaathvarfinu.
  3. Þagnarskyldu/trúnað má aðeins rjúfa kveði lög á um það eða ef augljós hætta bíður þjónustuþega eða annarra. Eins er þagnarskylda/trúnaður rofinn ef undirrituð beiðni berst af hálfu dvalar- eða viðtalskvenna.

Almennar skyldur starfskvenna

  1. Mikilvægt er að starfskonur leggi sig fram um að viðhalda faglegri þekkingu og hæfni í starfi. Starfskonurar er hvatt til að lesa faglegar greinar, sækja starfskvennafundi og kynna sér fræðirit er fjalla um ofbeldi og afleiðingar þess.
  2. Komi upp siðferðisleg álitamál ber starfskonum að ráðfæra sig við samstarfskonur á teymisfundi eða leita ráða hjá næsta yfirmanni, framkvæmdastýru og eftir atvikum stjórn Samtaka um Kvennaathvarf. Stjórnin er ábyrg fyrir endanlegum ákvörðunum er varða siðferðileg álitamál séu þau lögð fyrir hana.
  3. Beri svo við að starfskonur komi fram eða skrifi opinberlega fyrir hönd Kvennaathvarfsins skal viðkomandi gæta þess að vera málefnaleg í ræðu og riti og vinna þannig að því að viðhalda því trausti sem almenningur ber til Kvennaathvarfsins. Einnig er mikilvægt að starfskonur geri skýran greinarmun á því hvenær viðkomandi talar opinberlega, fyrir eigin hönd eða í nafni Kvennaathvarfsins.
  4. Vilji einstaklingur undir 18 ára nýta sér þjónustu Kvennaathvarfsins, ber starfskonum að tilkynna ólögráða einstaklingnum að Kvennaathvarfið séu skyldugt til að tilkynna það ofbeldi sem viðkomandi hafi verið beittur til barnaverndar.

Meðferð ábendinga/kvartana vegna starfskvenna

  1. Starfskona sem veit um brot starfsfélaga síns gegn siðareglum skal láta næsta yfirmann vita. Alvarlegri mál eru tekin fyrir á fundum framkvæmdateymis.
  2. Ábendingar eða kvartanir vegna starfskvenna sem berast frá þjónustuþegum eða samstarfsaðilum má bera fram við framkvæmdastýru.

Brot á siðareglum eru litin alvarlegum augum og tekur framkvæmdastýra ákvarðanir um viðbrögð við þeim.