Athvarfið er opið allan sólarhringinn þeim konum og börnum sem þurfa að koma til okkar í dvöl.
Ef þig grunar að heimilisofbeldi sé í gangi, ætti ég að hringja í 112
Hér eru algengar spurningar um Kvennaathvarfið og svör við þeim
Hvað er Kvennaathvarfið?
Það er athvarf fyrir konur sem geta ekki búið heima hjá sér vegna ofbeldis. Þær geta komið með börnin sín með sér. Ofbeldið getur verið alls konar og sá sem beitir því er oftast einhver nákominn, eins og maki, foreldri, systkini eða barn. Kvennaathvarfið er líka staður þar sem þú getur bókað í viðtal án þess að koma til dvalar. Hægt er að hringja og fá ráðgjöf og stuðning vegna ofbeldis allan sólarhringinn.
Kostar að koma í dvöl eða fá viðtal?
Nei það kostar ekkert.
Hvaða þjónustu er hægt að fá í Kvennaathvarfinu?
Hvort sem þú býrð í athvarfinu eða kemur í viðtal getur þú fengið stuðning og ráðgjöf auk upplýsinga um það hvert þú getur snúið þér næst. Sumar konur vilja fá upplýsingar, til dæmis um eðli ofbeldis, skilnaðarferli eða hvernig þær geta tekið næstu skref en aðrar þurfa meira stuðning til að vinna úr afleiðingum ofbeldisins. Á meðan konur búa í athvarfinu fá þær aðstoð til að taka næstu skref, hver sem þau kunna að vera.
Athvarfið er opið allan sólarhringinn, allan ársins hring. Konurnar sem vinna þar hafa margsvíslega menntun og mikla reynslu í vinnu með þolendum ofbeldis. Þær geta veitt ýmis konar upplýsingar og tilfinningalegan stuðning.
Er það bara fyrir konur sem eru að flýja ofbeldi?
Já, Kvennaathvarfið er fyrir konur sem eru að flýja ofbeldi. Við höfum rekið okkur á að það er mikilvægt að taka það fram að athvarfið er fyrir alls konar konur; samkynhneigðar konur og transkonur, konur með börn og líka fyrir konur sem eru ekki með börn, íslenskar konur og erlendar konur og konur sem ekki hafa verið beittar líkamlegu ofbeldi.
Það er líka best að taka fram að konur mega ekki nota áfengi eða fíkniefni í athvarfinu.
Athvarfið er líka fyrir fatlaðar konur en er því miður ekki með aðgengi fyrir hjólastóla en bæði athvarfið í Reykjavík og á Akureyri eru með úrræði fyrir konur sem nota hjólastól eða önnur hjálpartæki.
Geta konur átt heima í Kvennaathvarfinu og verið þar með börnin sín með sér?
Já. Það búa að meðaltali rúmlega 20 manneskjur í athvarfinu á dag, konur og börn. Það er mikilvægt að börn þurfi ekki að búa við ofbeldi því það getur haft varanleg áhrif á líðan, hegðun og almennt líf barnanna. Það er einmitt mikilvægt að þú komir í athvarfið ef þú býrð við ofbeldi og átt börn.
Hvað ef ég er með sérstakar óskir eða þarfir til dæmis vegna fötlunar, sjúkdóms eða annars?
Við gerum okkar besta til að meta allar þær ólíku þarfir sem konur geta mögulega haft og reynum þannig að koma til móts við þarfir þeirra kvenna sem til okkar leita.
Hvað er hægt að eiga heima þar lengi?
Það fer eftir aðstæðum hverrar og einnar. Kvennaathvarfið er neyðarathvarf og er hugsað til að búa tímabundið þangað til hættan er liðin hjá eða þangað til að hægt er að taka næstu skref. Slíkt er metið hverju sinni.
Er eitthvað gert til að tryggja öryggi íbúa athvarfsins?
Já, það er lögð mikil áhersla á að tryggja öryggi íbúa hússins og við erum í góðu samstarfi við lögreglu í tengslum við öryggismál.
Er hægt að stunda vinnu og geta börnin farið í skóla meðan dvalið er í athvarfinu?
Já, það er gert ráð fyrir því að íbúar athvarfsins lifi sínu daglega lífi. Flestar konurnar í athvarfinu halda áfram að fara í vinnuna og börnin fara oftast líka í sína leik- og grunnskóla.
Má ég fara út og hitta vini mína og slíkt?
Já auðvitað. Þú þarft bara að láta vita af þér og muna eftir húsreglunum sem til dæmis gera ráð fyrir því að konur séu komnar heim á miðnætti.
Þarf að koma með eitthvað með sér?
Nei, en það er gott ef þú ert í aðstöðu til að taka með þér skilríki og mikilvæg skjöl, lyf, skóladót barnanna og slíkt. Líka föt og hreinlætisvörur ef hægt er. Í athvarfinu færð þú herbergi, uppbúið rúm, mat og þær nauðsynjar sem þig vantar. Stundum fá konur aðstoð lögreglu til að fara heim og sækja brýnustu nauðsynjar.
Hvar er Kvenanathvarfið?
Það er eitt athvarf á höfuðborgarsvæðinu og eitt athvarf á Akureyri. Þangað geta konur af öllu landinu leitað, burtséð frá búsetu. Heimilisfangið er ekki gefið upp opinberlega en konur og börn sem til okkar leita fá það uppgefið. Lögreglan veit líka hvar athvörfin tvö eru nákvæmlega staðsett.
Hvernig kemst ég þá til ykkar?
Þú getur hringt til okkar í síma 561 1205 eða hringt á 112 og fengið aðstoð lögreglu til að komast til okkar. Eða spurt félagsráðgjafa, beðið einhvern á vinnustaðnum þínum að hafa samband við okkur, kannski nágranna, eða í leikskóla barnsins eða skóla svo dæmi séu nefnd.
Þarf ég að vera með tilvísun frá einhverjum til að hafa samband?
Nei, það þarf enga tilvísun til að koma til okkar, það er hægt að koma beint í athvarfið án þess að hringja á undan sér, meira að segja um miðja nótt.
Er opið allan sólarhringinn?
Já, það er alltaf ráðgjafi á vakt, allan sólarhringinn alla daga ársins.
Hvað ef það er fullt hjá ykkur?
Kvennaathvarfið er neyðarathvarf og þar er aldrei svo fullt að það sé ekki hægt að bæta við konu og börnum sem þurfa á dvöl að halda.
En ef ég tala ekki íslensku?
Allar starfskonur athvarfsins tala íslensku og ensku og jafnvel fleiri tungumál (spænsku, frönsku, sænsku, norsku og dönsku) en stundum þurfum við aðstoð við túlkun og þá notum við ýmsist þýðingarforrit á netinu, símatúlkun eða fáum túlk í athvarfið.
Ef ég kem í viðtal eða dvöl hefur það áhrif á rétt minn til að vera á Íslandi svo sem dvalarleyfi eða ríkisborgararétt?
Nei.
Má ég koma þótt ég verði ekki fyrir líkamlegu ofbeldi?
Já auðvitað, það eru ekki allar konur sem hafa reynslu af líkamlegu ofbeldi eða hafa fengið áverka sem til okkar leita.
Er það sem kom fyrir mig er nógu alvarlegt til að leita til Kvennaathvarfsins?
Já. Allar vangaveltur eiga rétt á sér og það er okkar reynsla að konur sem velta fyrir sér hvort þær eigi erindi í athvarfið eiga það oftast.
En ef ég kem til ykkar verð ég þá að fara frá manninum mínum? Eða skilja við hann?
Nei, þú ræður hvað þú gerir. Ráðgjafarnir í Kvennaathvarfinu gefa þér upplýsingar til að hjálpa þér við að meta stöðu þína og við að taka ákvörðun um hvað þú vilt gera en þú verður að taka ákvörðunina sjálf.
Verð ég tilkynnt til barnaverndar ef ég kem og á börn?
Í barnaverndarlögum kemur fram að fólk sem vinnur með börnum og sem hefur ástæðu til að ætla að barn búið við óviðunandi aðstæður sé skylt að tilkynna barnavernd. Við skilgreinum ofbeldisheimili sem óviðunandi aðstæður barns og því er meginreglan sú að við tilkynnum þegar börn koma í dvöl í athvarfið og ef þau fara aftur heim á ofbeldisheimilið.
Eru börnin þá tekin af mér?
Nei, barnavernd tekur börn ekki af móður bara vegna þess að hún hefur verið beitt ofbeldi. Þvert á móti getur barnavernd hjálpað mæðrum í þessari stöðu, hlutverk barnaverndar er að vernda börn og með því að koma með börnin í Kvennaathvarfið ertu að koma í veg fyrir að börnin séu beitt ofbeldi.