Fyrir hverjar er Kvennaathvarfið?

Samtök um kvennaathvarf reka tvö athvörf fyrir konur, eitt í Reykjavík og eitt á Akureyri.

Bæði athvarfið í Reykjavík og á Akureyri er fyrir allar konur sem geta ekki búið heima hjá sér vegna ofbeldis. Athvörfin eru fyrir allskonar konur óháð kynhneigð; konur með börn og án barna, íslenskar konur sem erlendar, transkonur og konur sem hafa ekki verið beittar líkamlegu ofbeldi. Ofbeldið getur verið alls konar og sá sem beitir því er oftast einhver nákominn, eins og maki, foreldri, systkini eða barn. Notkun áfengis eða fíkniefna er með öllu bönnuð í athvarfinu.

Bæði athvarfið í Reykjavík og á Akureyri eru líka fyrir fatlaðar konur en því miður er ekki aðgengi fyrir hjólastóla eins og staðan er í dag. Til að koma til móts við þennan hóp höfum við gert aðrar ráðstafanir svo konur sem notast við hjólastól eða önnur hjálpartæki hafi tök á því að komast í öruggt skjól og fá sömu þjónustu og konurnar sem dvelja í húsi.

Börn í athvarfinu

Mæður bera ábyrgð á börnum sínum á meðan dvöl stendur. Árið 2020 var ráðin sérstakur barnastarfsmaður í athvarfið í Reykjavík sem heldur utan um málefni barna og mæðra í húsi. Barnastarfið er skipulagt út frá stöðunni í húsinu hverju sinni og miðar að því að börnin fái tilbreytingu og upplifi skemmtilegar stundir í húsi. Mikið er lagt upp úr því að halda upp á afmæli og aðra hátíðisdaga.

Lífið í athvarfinu 

Bæði athvarfið í Reykjavík og á Akureyri er rekið sem heimili og er reynt að gera þau eins heimilisleg og kostur er á. Við komu í athvarfið fær konan herbergi með uppábúnu rúmi fyrir sig og börn sín, ef kona er með börn í dvöl. Í athvarfinu hafa konur aðgang að þráðlausu neti, þvottavél og þurrkara. Dvöl í athvarfinu er ókeypis og konum og börnum eru einnig útvegaðar nauðsynjavörur, svo sem matur og hreinlætisvörur. Starfskonur og dvalarkonur skipta með sér húsverkum. Í húsinu ríkja fáar en mikilvægar húsreglur sem miða að því að sambúð kvenna og barna gangi sem best. Reglur gilda um háttatíma barna og reynt er að skapa öryggi og festu í starfinu svo dvölin verði árangursrík.

Í athvarfinu í Reykjavík og á Akureyri er lögð áhersla á trúnað um það sem fram fer á milli dvalarkvenna og starfskvenna, og almennt eru heimilisföng athvarfanna ekki gerð opinber. Unnið er samkvæmt þeirri hugmyndafræði að konan sé sérfræðingur í sínum málum og að hún þurfi aðeins tímabundna aðstoð til að takast á við aðstæður sínar og byggja upp líf án ofbeldis.

Konur sem dvelja í athvarfinu fá vikuleg viðtöl við ráðgjafa. Viðtölin geta verið í formi almennrar ráðgjafar, stuðnings, upplýsingamiðlunar og/eða leiðbeininga. Það er mjög misjafnt hversu lengi konur þurfa að dvelja í athvarfinu og hvers konar þjónustu þær þurfa á að halda. Dvalarkonur eru hvattar til að gefa sér tíma í athvarfinu til að ná áttum, hvílast og styrkjast. Þær fá aðstoð við að komast í samband við þá aðila sem geta hjálpað þeim við næstu skref svo sem lögreglu, félagsþjónustu, lögfræðinga og aðra fagaðila. Eftir að dvöl í athvarfinu lýkur geta konur áfram komið í stuðningsviðtöl.

Kvennaathvarfið er heimili, hér eru nokkrar myndir úr Kvennaathvarfinu í Reykjavík: