Stefna kvennaathvarfsins 2023 til 2026
Samtök um kvennaathvarf eru frjáls félagasamtök sem rekin eru fyrir konur sem hafa orðið fyrir ofbeldi í nánu sambandi og börn þeirra. Öll starfsemi athvarfsins miðar að velferð kvenna og barna þeirra.
HLUTVERK samtakanna samkvæmt lögum þeirra er:
- Að reka athvarf fyrir konur og börn þeirra sem beitt hafa verið andlegu, líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi í nánu sambandi.
- Að veita ráðgjöf og upplýsingar til þolenda ofbeldis og aðstandenda þeirra.
- Að efla fræðslu og samfélagsumræðu um kynbundið ofbeldi.
FRAMTÍÐARSÝN samtakanna er að allar konur og börn þeirra sem hafa verið beitt ofbeldi í nánu sambandi fái stuðning, tímabundið skjól og kærleiksríkt heimili. Samtökin gegni jafnframt leiðandi hlutverki í fræðslu og samfélagsumræðu um kynbundið ofbeldi í nánum samböndum og alvarleika þess.
Gildi samtakanna FAGMENNSKA, KÆRLEIKUR og SVEIGJANLEIKI eru leiðarljós í allri starfsemi athvarfsins bæði inná við og út á við.
Stefnunni er skipt upp í þrjá megin þætti
Fagleg starfsemi og þjónusta
Lögð er áhersla á að taka vel á móti öllum konu og aðstoða þær af fagmennsku og sveigjanleika. Tekið er á móti konum og börnum þeirra sem flýja þurfa heimili sín sökum ofbeldis. Athvarfið og neyðarsími þess er opið allan sólarhringinn, alla daga ársins. Auk þess er haldið úti viðtalsþjónsutu fyrir konur sem orðið hafa fyrir ofbeldi í nánum samböndum en dvelja ekki í athvarfinu. Lögð áhersla á að konur stýri sjálfar sinni vegferð með faglegum stuðningi og valdeflingu af hálfu ráðgjafa. Konur fá rými til þess að vinna úr reynslu sinni og upplifunum. Konur fá auk þess ráðgjöf og stuðning varðandi samskipti sín við stofnanir og opinbera aðila. Kvennaathvarfið leitast við að eiga góðar tengingar við sína samstarfsaðila, sem auðvelda ætti úrlausn mála kvennanna sem til athvarfsins leita.
Miðað er að því að koma til móts við þarfir barna samkvæmt aldri og þroska. Leitast er við að tryggja að börn fái vandaðan og samfelldan stuðning á meða á dvöl stendur. Barnastarf er þróað samkvæmt áralangri reynslu athvarfsins og einnig með hliðsjón af nýjustu rannsóknum og þekkingu á afleiðingum ofbeldis á börn. Reynt er að tryggja að börn fái þá þjónustu innan kerfisins sem þau þurfa á að halda.
Fræðsla, miðlun og tengsl við samfélagið
Athvarfið miðlar fræðslu um kynbundið ofbeldi í nánum samböndum með það að markmiði að auka meðvitund um birtingamyndir og afleiðingar þess og þau úrræði sem í boði eru. Athvarfið tekur frumkvæði að því að koma fræðslu til framhaldsskóla og helstu stofnana landsins og er tilbúið til samstarfs ef þess er óskað. Upplýsingar um starfsemina og fræðsla eru aðgengileg á vefsíðu og samfélagsmiðlum athvarfsins. Stuðlað er að aukinni þekkingu og fræðslu til kvenna sem til athvarfsins leita með það að markmiði að valdefla þær. Starfsemi athvarfsins er gerð sýnileg með reglulegri upplýsingagjöf til fjölmiðla, þátttöku á samfélagsmiðlum og með því að veita samstarfsaðilum fræðslu og reglulegar upplýsingar. Kvennaathvarfið tekur virkan þátt í samfélagsumræðu um kynbundið ofbeldi. Kvennaathvarfið kemur faglegum sjónarmiðum á framfæri þegar lög eru í vinnslu á Alþingi sem tengjast málaflokknum. Kvennaathvarfið tekur þátt í skipulögðum viðburðum, s.s. málþingum, ráðstefnum og fundum, sem fjalla um kynbundið ofbeldi og úrræði gegn því. Athvarfið tekur virkan þátt í norrænu og alþjóðlegu samstarfi á þessum vettvangi.
Mannauður, skipulag og rekstur
Kvennaathvarfið leitast við að mannauður þess hafi þá reynslu og burði sem til þarf til að koma til móts við þarfir og gildi starfseminnar. Gætt er að því að nýtt starfsfólk fá góða og viðeigandi þjálfun. Stuðlað er að stöðugri starfsþróun í takt við starfsþróunaráætlun, sem unnin er af starfskonum og stjórnendum. Starfskonur sýni hver annarri virðingu og hafi jákvæð samskipti að leiðarljósi. Stjórendur skuli stuðla að góðu samráði með virkri hlustun og rými til tjáningar. Tryggt er gott upplýsingaflæði innan starfshópsins, með reglulegum fundum og markvissri notkun samskiptamiðla. Til að tryggja gæði þjónustu og samræmingu í starfseminni eru til staðar skýrir verkferlar og öguð vinnubrögð. Hvatt til gagnlegrar og sanngjarnrar umræðu um það sem betur má fara. Kvennaathvarfið er rekið með ábyrgum hætti í samræmi við fjárhagsáætlun. Leitast er við að tryggja gagnsæi í ákvarðanatöku og upplýsingaflæði milli stjórnar og starfsfólks.