Kvennaathvarfið býður uppá öruggt skjól, ráðgjöf og stuðning fyrir konur og börn þeirra, sem flýja þurfa heimili sín sökum ofbeldis. Athvörfin eru staðsett í Reykjavík og á Akureyri en eru opin fyrir allar konur óháð búsetu eða lögheimili. Einnig er boðið uppá ráðgjafaviðtöl að kostnaðarlausu. Vaktsími Kvennaathvarfsins er opinn allan sólarhringinn og þar geta þolendur, aðstandendur og fagfólk fengið ráðgjöf og stuðning. Vaktsíminn er 561 1205.
Ráðgjafar sem sinna stuðningi og ráðgjöf í Kvennaathvarfinu eru allir með mikla reynslu og fjölbreyttan bakgrunn hvað varðar menntun; svo sem sálfærði, kynjafræði, félagsfræði, afbrotafræði, mannfræði og fjölskylduráðgjöf. Ráðgjafarnir vinna á vöktum og halda athvarfinu opnu allan sólarhringinn, árið um kring.
Framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins er Linda Dröfn Gunnarsdóttir – netfangið linda@kvennaathvarf.is
Samtök um Kvennaathvarf eru frjáls félagasamtök og ekki rekin í hagnaðarskyni. Stofnfundurvar haldinn 2. júní 1982. Þar var ákveðið að opna athvarf fyrir konur sem ekki gætu búið heima hjá sér vegna ofbeldis og 6. desember sama ár var Kvennaathvarfið opnað. Samtök um kvennaathvarf voru í upphafi grasrótarsamtök en árið 1995 var horfið frá því fyrirkomulagi og mynduð formleg samtök. Árið 2010 var stofnuð sjálfseignarstofnun um húseign Kvennaathvarfsins en rekstur athvarfsins hélst óbreyttur.
Stjórn samtakanna er skipuð fimm aðilum og tveimur til vara. Stjórn er kjörin á aðalfundi samtakanna sem haldinn er í apríl ár hvert. Þar eru einnig samþykktar grundvallarbreytingar á starfsemi samtakanna. Stjórnarfundir eru haldnir mánaðarlega en oftar ef þurfa þykir. Stjórn ber ábyrgð á starfseminni í heild, tekur helstu ákvarðanir og leggur drög að starfi framkvæmdateymis.