Kvennaathvarfið 40 ára

Í ár verða liðin 40 ár síðan Kvennaathvarfið var stofnað á Íslandi. Síðan þá hefur ýmislegt breyst og umræða um ofbeldi í nánum samböndum er ekki lengur það feimnismál og var við stofnun athvarfsins. Því miður hefur sú vitundarvakning ekki orðið til þess að konur séu hættar að þurfa að flýja heimili sitt af þessum sökum.

Að meðaltali dvelja um 130 konur á ári í athvarfinu og er meðal dvalartími þeirra um 30 dagar. Mjög oft dvelja börn með mæðrum sínum í athvarfinu. Kvennaathvarfið veitir þessum konum og börnum þeirra húsaskjól, aðhlynningu, viðtöl við reynda ráðgjafa og margþætta aðstoð og þjónustu.

Viðtalsþjónusta

Í Kvennaathvarfinu er einnig veitt viðtalsþjónusta án þess að til dvalar þurfi að koma. Sú þjónusta er vaxandi liður í starfsemi athvarfsins. Auk þess að veita konum sem leita beint til Kvennaathvarfsins ráðgjöf veita ráðgjafar athvarfsins skjólstæðingum Bjarkarhlíðar einnig fjölmörg viðtöl á ári hverju. Á árunum 2019-2021 voru að meðaltali veitt um 1000 viðtöl á ári, en á síðasta ári voru þau yfir 1200.

Nýtt húsnæði

Okkur dreymir um að geta boðið öllum konunum okkar og börnum þeirra upp á heimili á einum stað þar sem hugað er að þeirra þörfum og hagsmunum. Því höfum við ákveðið að ráðast í byggingu nýs athvarfs sem er sérstaklega hannað með það í huga að sinna á einum stað þeirri fjölbreyttu þjónustu sem við veitum. Með nýju húsnæði getum við einnig stórbætt aðgengi okkar sem því miður er ekki gott í núverandi húsnæði.

Fengist hefur fjármagn frá ríkinu til að koma verkefninu af stað, en við þurfum á stuðningi allra landsmanna að halda til að nýtt athvarf geti orðið að veruleika. Í byrjun nóvember verður landssöfnun í byggingarsjóð fyrir nýju athvarfi á Stöð 2, en fram að þeim tíma verða fjölmargar aðgerðir í gangi til að afla fjár til byggingar á nýju athvarfi.

Söfnunin er tvíþætt, annars vegar verður óskað eftir styrkloforðum frá einstaklingum og fyrirtækjum og hins vegar verður haldið listmunauppboð, þar sem fólki gefst tækifæri á að gefa og kaupa listmuni, þar sem ágóðinn rennur óskiptur til söfnunarinnar.

Það er einlæg ósk okkar að landsmenn leggist á árarnar með okkur og aðstoði okkur við að reisa nýtt, vel búið Kvennaathvarf þar sem allar konur sem þurfa á okkur að halda og þeirra börn, verða boðnar hjartanlega velkomnar.

Hér eru upplýsingar um styrktarleiðir.